
Sr. Sveinn Valgeirsson er sóknarprestur Dómkirkjunnar og þau eru mörg pörin sem hann hefur gefið í hjónaband og um brúðkaupið sjálft segir hann: „Þetta er náttúrlega löggerningur þannig að hjónaefni þurfa að hafa samband við Þjóðskrá og sýslumann og láta gera könnunarvottorðið; þetta er ekki löglegt nema að þeir hlutir séu allir í lagi og það verður að vera búið að undirbúa þá áður.“
Í könnunarvottorði segir meðal annars: „Hjónaefni ábyrgjast með undirritun sinni að ofangreindar upplýsingar eru réttar og lýsa því yfir að viðlögðum drengskap að þau viti ekki um tálma á fyrirhuguðum hjúskap skv. hjúskaparlögum nr. 31/1993.“ Einnig segir: „Undirritaðir svaramenn hjónaefna ábyrgjast hér með að enginn lagatálmi sbr. II. og III. kafla laga nr. 31/1993 er á fyrirhuguðum hjúskap.“
Á síðu Stjórnarráðs Íslands kemur fram: „Könnun hjónavígsluskilyrða mun einungis fara fram hjá sýslumanni, frá og með 1 september næstkomandi. Könnun hjónavígsluskilyrða, áður en hjónavígsla fer fram, verður nú ekki lengur á hendi presta eða forstöðumanna trú- og lífskoðunarfélaga og umboðsmanna þeirra og gildir einu hvort hjónaefni eiga lögheimili hér á landi eða ekki. Vígsluheimildir presta og forstöðumanna trú- og lífsskoðunarfélaga og umboðsmanna þeirra verða óbreyttar, þannig að hjónaefni geta áfram valið hver framkvæmir hjónavígsluna, en þau þurfa að leita til sýslumanns fyrst til þess að kanna hvort hjónavígsluskilyrði séu uppfyllt. Útgáfa könnunarvottorðs sýslumanns er forsenda þess að hjónavígsla megi fara fram.“ (https://www.stjornarradid.is/efst-a-baugi/frettir/stok-frett/2022/08/25/Syslumadur-annast-konnun-hjonavigsluskilyrda/)
Hver dagur hátíðisdagur
Verðandi brúðhjón sem gifta sig að kristnum sið og hjá Þjóðkirkjunni mæta almennt einu sinni eða tvisvar til prests til undirbúnings. Sveinn segir að ritúalið snúist ekki um að spyrja hvort þau séu ástfangin. „Við vitum það. Ég er sjaldnast að leggja línurnar fyrir fólk hvernig það eigi að hafa þetta þannig séð; þau eru búin að búa í einhvern tíma og reyna ýmsa hluti sem hjón ganga í gegnum þannig …