
Myrtuplanta, eða Myrtus communis og Myrtuntium á latnesku, hefur löngum verið táknmynd fegurðar, frjósemi og ástar, rétt eins og rósin rauða. Orðið vísar til tegunda plantna af ættinni Myrtaceae en myrta ber líka nafnið brúðarlauf.
Myrtan er runni sem er upprunninn í Suður-Evrópu, í löndunum við Miðjarðarhafið, Norður-Afríku og á Vestur-Indlandsskaga. Forn-Rómverjar tileinkuðu ástargyðjunni Venus myrtublóm. Í rómverskum helgisiðum, meðal annars á Grikklandi til forna, var myrtuplantan tákn kærleika og ódauðleika og brúðarsveigur fléttaður úr myrtublómum var lagður á höfuð brúðarinnar en sá siður barst til Norðurlandanna og jafnvel til Íslands en þess eru dæmi samkvæmt heimildum að slíkt hafi verið gert hér.
Yrkisefni skálda og tónskálda
Sterk vísun myrtublóma í ást og rómantík hefur verið bæði skáldum og tónskáldum yrkisefni um aldaraðir, má þar nefna Robert Schumann (1810–1856) sem samdi ljóðaflokkinn Myrten sem brúðargjöf til eiginkonu sinnar, Clöru Schumann, en ljóðaflokkurinn er ástarjátning hans til hennar. Lagið Widmung úr þessum ljóðaflokki fjallar um djúpar tilfinningar þess sem elskar og er elskaður, og er afar fallegt lag við ljóð Friedrich Rückert. Þess má geta að Clara var einnig gott tónskáld og píanisti og samdi eins og maður hennar ljóðaflokka. Valsakóngurinn Johann Strauss yngri samdi árið 1881 Myrthenbluten í tilefni af brúðkaupi Rúdolfs krónprins, sem var sonur Austurríkiskeisara, þegar hann gekk að eiga Stefaníu prinsessu af Belgíu og öll Vínarborg fagnaði glæsilegum brúðarvalsinum. Við Íslendingar eigum einnig okkar Myrtuljóð en Hafliði Hallgrímsson samdi kórverkið Myrtuskóg um systur sína sem hann missti við fornt rómverskt ljóð frá 4. öld.
Fegurð blómsins
Það er ekkert skrýtið að myrtublómið hafi skipað þennan sess, blómið er bæði einstaklega fallegt og sterkt auk þess sem hvíti liturinn er tákn hreinleika og heilagleika. Myrtan er sígrænn runni sem getur orðið fimm metrar á hæð. Vel er hægt að stjórna vexti plöntunnar með því að klippa hana til. …