
Benjamínfíkus er sterk planta og þrífst vel ef rétt er hugsað um hana. Hún á að hafa góð áhrif á hljóðeinangrun en mörg heimili eru með opin stór aðalrými, jafnvel hátt til lofts og því nokkuð berskjölduð fyrir hljóði sem berst vel. Benjamínfíkus á einnig að hafa góð áhrif á loftgæði eins og reyndar heimilisplöntur almennt.
Benjamínfíkus er upprunnin í Suður-, Suðaustur-Asíu og Ástralíu. Hann dafnar á Flórída og í Arisóna í Norður-Ameríku. Í náttúrulegu umhverfi sínu getur tréð orðið allt að 30 metra hátt. Benjamínfíkus er falleg planta, greinar hennar eru langar og slútandi, blöðin sporöskjulaga og fagurgræn með örlitlum gljáa en börkurinn ljósbrúnn.
Nokkur afbrigði eru til af Ficus Benjamina, en plantan er einnig þekkt sem grátfíkja, ficus-tré, eða bara sem fikus og er tegund af blómstrandi plöntu af móberjaætt (Moraceae). Benjamínfíkus er þjóðarblóm í Taílandi og plantan sögð hreinsa burt illa anda.

Góð fyrir umhverfið
Benjamínfíkus er, eins og önnur heimilisblóm, góður fyrir umhverfið, tekur koltvíoxíð úr umhverfinu og gefur okkur súrefni fyrir tilstilli ljóstillífunar ferlisins sem fer fram í grænkornum plantna, en þær vinna orku úr sólarljósi. Þannig hreinsa heimilisplöntur andrúmsloftið fyrir okkur og eru heilnæmar.
Á heimilum getur Benjamínfíkusinn orðið allt að 5 metra hár. Benjamínfíkus dafnar vel í birtu. Plöntuna ætti þó ekki að hafa í of mikilli sól, nema hluta úr degi, en heldur ekki í skugga. Við þær aðstæður dafnar hún ekki vel og getur misst laufblöðin. Plantan þolir illa trekk og þarf hlýjan stað. Benjamínfíkus er viðkvæmur fyrir hvers kyns breytingum eins og að vera færður til ef birtuskilyrði breytast og fellir þá gjarnan laufin. Plantan er þó yfirleitt fljót að taka við sér aftur sé vel hugsað um hana.
Vert er að taka fram að plantan er þekkt sem ofnæmisvaldur en einkum hjá þeim sem eru með latexofnæmi en það …