Á ferli sínum hefur Jónína unnið ötullega að málefnum myndlistarmanna og var fyrsti formaður Leirlistafélagsins. Hún varð fyrst Íslendinga til að vera formaður Norræna myndlistarsambandsins og var útnefnd bæjarlistarmaður Hafnarfjarðar árið 2007. Jónína hefur sinnt nytjalist samhliða myndlist sinni en hún hefur gert bæði úti- og innilistaverk og þrátt fyrir langan feril sem nær frá miðjum 7. áratug síðustu aldar sest hún enn á rennibekkinn.
Jónína ólst upp á Akranesi, þar sem fjaran var hennar daglegi leikvöllur. „Þegar maður fer að vinna úr minningum sínum þá kemur þetta upp, bæði leikurinn á Akranesi í fjörunni og í sveitinni á sumrin. Þegar ég var smákrakki gengum við pabbi á Langasandi og hann sýndi mér bakkann þar sem leirlag var. „Þetta er leir og úr honum er hægt að móta,“ sagði hann. Ég man að mér þótti þetta svo ævintýralegt og fór þarna oft til að ná mér í smá leir og þarna kviknaði eitthvað,“ segir Jónína.
„Ég var í sveit á sumrin að Borgarfelli í Skaftártungu, frá fjögurra ára aldri, og varði fallegasta tíma ársins í Skaftártungunni, frá maí og fram yfir réttir. Þetta var yndislegt og þegar maður fer að vinna úr minningum sínum þá koma þessar upp, bæði leikurinn í fjörunni og sveitinni. Manni var treyst vel í Skaftártungu og það mótaði mig svo sannarlega.
Þetta var mín leið
Þegar ég var komin á þessa framhaldsbraut þá fann ég hvaða leið ég vildi fara. Ég hafði alltaf verið góð í teikningu og skapandi vinnu og ég gerði mér grein fyrir að þetta væri mín leið.“ Jónína fór í Myndlista- og handíðaskólann og síðan í Myndlistarskóla Reykjavíkur. Meðfram náminu vann hún í Glit við skreytingar sem hún segir að hafi verið eins konar suðupunktur fyrir unga myndlistarmenn en Ragnar Kjartansson, sem stofnaði Glit, var skólastjóri Myndlistarskóla Reykjavíkur …





