Í Mosfellsbæ er náttúran allt í kring í hverfinu þar sem hún býr í nútímalegu tveggja hæða raðhúsi. Lóðin fyrir framan húsið er ekki fullkláruð en þegar inn í húsið er komið tekur við litríkur ævintýraheimur.
Halldóra Sif klæðist fjólublárri buxnadrakt, hvítri skyrtu og ber fjólublátt bindi. Allt er þetta hönnun hennar. Hvítir skórnir eru frá íslenska merkinu Kalda.
Hún býður til sætis í stofunni á efri hæðinni.

Halldóra Sif ólst upp í Kópavogi fyrstu árin en flutti níu ára gömul í Mosfellsbæ. Áratugir liðu þar til byrjað var að byggja í hverfinu þar sem hún býr í dag ásamt eiginmanni sínum, Kristni Péturssyni, þrettán ára syni þeirra og dætrum, sjö og fimm ára.
Foreldrar hennar voru mikið í hestum og ráku ásamt fleirum verslunina Töltheima.
„Þau voru að rækta hesta og ég var að temja og hjálpaði eins mikið til og ég gat. Ég held það hafi hjálpað mér mjög mikið að vera í tengslum við náttúruna og geri það enn í dag. Mamma og pabbi eru eiginlega hætt í hestamennskunni en ég og önnur stelpan mín erum alveg sjúkar í hesta þannig að við erum tvær með nokkra hesta inni í húsi.“

Sem barn var hún mikið í sveit. „Amma …