
Nú er tími til að fá sér heimilisplöntu, en mörgum finnst svolítið tómlegt eftir jólin þegar ljósin og skrautið sem fylgir þeim er farið. Blómabúðirnar fyllast af heimilisplöntum, oft á tilboðum, og þær prýða heimilin. Sómakólfur, eða Zamiouculcas zamiifolia eins og plantan heitir á latínu, er ein af þeim heimilisplöntum sem hafa notið vinsælda undanfarið og ekki að ástæðulausu. Sómakólfurinn er falleg og smart planta sem auðvelt er að koma fyrir nánast hvar sem er, m.a. í hornum, á skenk og það er langt í frá vandmeðfarið að láta hana þrífast vel. Eins og inniplöntur gera þá tekur sómakólfurinn óæskileg efni úr andrúmsloftinu og hreinsar það.
Uppruni
Sómakólfur er af svokallaðri Araceae-ætt og á uppruna sinn í Austur-Afríku, meðal annars finnst plantan í Malaví, Kenía, Mósambík, Simbabve og Tansaníu og nær útbreiðsla sómakólfsins allt til norðurhluta Suður-Afríku. Plantan er þekkt undir fleiri nöfnum eins og Zansibar-gimsteinn, eilífðarjurt, smaragðspálmi og zuzu-planta. Tegundarnafnið zamiifolia þýðir í raun lauf og er myndað úr nafni úr grasafræðinni zamia og latneska orðinu folium, sem merkir lauf. Plantan er harðgerð og lifir af þurrka vegna vatnsforða sem plantan getur geymt í sekki þar til úrkoma kemur á ný. Plöntunni var lýst í texta tiltölulega snemma á 19. öldinni en árið 1996 hóf hollenskt garðyrkjufyrirtæki að framleiða plöntuna til útflutnings og hafa vinsældir hennar aukist jafnt og þétt síðan.
Heilnæm planta
Heimilisplöntur ættu að vera á hverju heimili. Koltvíoxíð (CO2) finnst víða í kringum okkur, það er meðal annars í gosdrykkjum, í steinum, gangstéttum og malbikuðum götum. Grænar heimilisplöntur taka koltvíoxíð úr andrúmsloftinu en þá losnar í þeim vatn og súrefni myndast. Plönturnar vinna orku úr sólarljósinu til þess að þetta geti gerst, breyta því í súrefni fyrir tilstilli ljóstillífunar, sem er ferlið sem fer fram í grænkornum plantna. Það er því hollt að hafa grænar heimilisplöntur …