
Björn Berg Gunnarsson fjármálaráðgjafi segir að það mikilvægasta við fjármálahliðina þegar fólk hugar að fríi erlendis – og auðvitað líka innanlands – sé að passa upp á að fríið verði staðgreitt. Hann segist skilja að þegar fólk er komið út og það er gaman þá geti það aðeins farið fram úr sínu fjárhagslega svigrúmi og eytt kannski aðeins meiru en innistæða er fyrir, en það sé svo mjög erfitt að ætla síðan að vinda ofan af þeim lánum sem þyrfti að taka í kjölfarið.
„Það sem er því miður allt of algengt er að greiðslukortareikningurinn eftir fríið er ekki staðgreiddur strax eða næst þegar reikningurinn berst heldur fer fólk að dreifa greiðslunum. Þetta er því miður ekki bara allt of algengt heldur rándýrt. Þess vegna er besta leiðin að skrifa niður eins nákvæma útgjaldaáætlun og hægt er, jafnvel áður en hlutirnir eru bókaðir. Hversu dýrt má þetta frí verða? Og því fyrr sem fólk gerir það því ódýrara getur það mögulega orðið vegna þess að þá getur það farið að góma einhver tækifæri. Það er hægt að skrá sig á póstlista og það er hægt að nýta sér tilboð á flugi, bílaleigubíl og gistingu. Fólk ætti að verja góðum tíma í að leita að sem lægsta og besta verði þannig að tíminn vinni með því í því.“

Björn Berg segir að þegar fólk er komið með skýra áætlun þar sem standi svart á hvítu hversu dýrt hitt og þetta má vera þá sé hægt að fara að safna þeirri fjárhæð. „Stundum er …