
Ingu Elínu finnst gaman að gera skúlptúra og stærri verk en hennar þekktustu verk eru þó smærri, eins og veltibollarnir svokölluðu, þar sem falleg hönnun og smáatriðin leika vel saman ásamt notagildi. Árið 2020 opnaði Inga Elín nýtt gallerí, ásamt syni sínum, Kristni Ísaki Ingusyni, sem er framkvæmdastjóri fyrirtækisins, á sama stað þar sem hún hafði verið með gallerí 25 árum áður á Skólavörðustíg. Hönnun Ingu Elínar spannar vítt svið, munir hennar eru stórir og smáir, allt frá klassískum svart-hvítum upp í fágaða og glæsilega gyllta.
Inga Elín segist hafa haft áhuga á öllum greinum myndlistarinnar, það hafi þó verið eitthvað við leirinn sem heillaði hana. Hún byrjaði ung að læra myndlist og á 10 ára menntun að baki í myndlist og keramík. Hún var í fimm ár í Myndlista- og handíðaskólanum og útskrifaðist þaðan sem myndmenntakennari. Þá hóf hún kennslu í myndmennt 21 árs gömul og kenndi í þrjú ár „Ég ákvað þá að fara til Danmerkur og taka framhaldsnám í keramík, ég var í náminu í fimm ár og útskrifaðist úr keramíkdeild og glerblástursdeild.“
Þá hlaut hún verðlaun við útskrift fyrir kristalsglös og postulínsbolla og tók við þeim frá Danadrottningu – en verðlaunin nefnast Kunsthåndværkerprisen af 1879.
Eftir útskrift fór Inga heim staðráðin í að lifa á listinni þrátt fyrir að á þeim tíma hafi verið fáir keramíkerar sem gátu það. Hún keypti ofn, ætlaði ekki að fara í kennslu og það gekk eftir. „Ég hefði aldrei verið á þeim stað sem ég er á núna ef ég hefði farið í kennsluna.“
Aðspurð hvort hana langi til að snerta meira á því að blása gler segir hún að ef hún hefði stofnað glerblástursverkstæði hefði hún ekki gert neitt annað. Hún hafi gert glerverk og hannað verðlaun, m.a. Íslensku tónlistarverðlaunin í 25 ár, um yfir 30 gripi á ári.
