
Fyrir um það bil 27 árum var Sunna Björk Hreiðarsdóttir myndlistarmaður beðin um að sérhanna íslensku jólasveinana fyrir Jólagarðinn í Eyjafjarðarsveit en eigendur Jólagarðsins, sem eru tengdir henni fjölskylduböndum, hafa svo látið framleiða þá í Kína. Einnig hannaði hún Grýlu, Leppalúða og jólaköttinn.
„Ég hafði frjálsar hendur við hönnunina og útkoman er líklega einhvers konar sambland af íslensku jólasveinunum og þeim bandaríska en allir eiga þeir stóran þátt í minni upplifun af jólasveininum, en það er kannski helst litadýrðin og góðlegur svipur sem kemur frá þeim ameríska. Íslensku jólasveinarnir hafa allir sín séreinkenni. Þeir voru upphaflega hafðir til að hræða börn og er útlitið eftir því en hafa samt með tímanum tekið á sig huggulegri mynd. Ég vildi því taka þessa ímynd lengra og hafa þá blíðlegri og litríkari.“
Sunna Björk segir að sér hafi fundist vera mjög spennandi að fá að hanna jólasveinana og segist vera þakklát fyrir að fá þetta tækifæri þó hún hafi ekki endilega verið full sjálfstrausts og ekki grunað hver útkoman yrði, enda hafði hún ekki mikla reynslu af svona hönnun þó hún hafi lengi haft gaman af að teikna og skapa. „Mér hlýnar ótrúlega í hjartanu að vita til þess að jólasveinarnir séu enn að seljast og fólk safnar þeim jafnvel.“
Sunna Björk segist halda að hún verði alltaf jafnspennt fyrir jólunum sama hvað hún verður gömul og byrjar að hlakka til strax á haustin. „Enda fylgir því gleði að bíða eftir gleðinni.
Það verður óhjákvæmilega alltaf aðeins jólastress hjá mér og …



