
Sveinbjörn Ari Gunnarsson og eiginkona hans, Bryndís Erlingsdóttir, festu fyrir sex árum síðan kaup á fokheldu einbýlishúsi sem stendur á rúmlega 900 fermetra lóð. Sveinbjörn Ari er húsasmiður og innréttaði húsið sjálfur. Þegar kom að lóðinni var upphaflega hugmyndin að vera með pall með heitum potti og gras þess utan.
„Svo fékk ég þá hugmynd að það væri gaman að framlengja stofuna eða vera með útisvæði þar sem væri hægt að njóta þess að vera. Fyrsta hugmyndin var því ekki endilega að rækta heldur að reyna að nýta garðinn meira á vorin og haustin.“
Síðan fékk Sveinbjörn Ari hugmynd um gróðurhús í garðinum, sem tengist áhuga hans á gróðri og var einnig ætlað að framlengja stofuna.

Fuglafæla með stíl
Hjónin skoðuðu nokkur gróðurhús og völdu 13,5 fermetra gróðurhús frá Lágafelli. Sveinbjörn Ari segir að í flestum sveitarfélögum gildi sú regla að það megi byggja lítil hús upp að 15 fermetrum án þess að þurfa byggingarleyfi og þess vegna sé þessi stærð gróðurhúsa langalgengust.
„Þegar við vorum að skoða okkur um fannst okkur þetta gróðurhús flottast. Það passar ekkert endilega við útlitið á íbúðarhúsinu okkar sem er hvítt með rauðu þaki, en okkur leist samt best á þetta. Og það kemur vel út í garðinum þótt það sé svart og húsið hvítt. Það truflar mig ekki. Við erum ánægð með að hafa valið hús með valmaþaki sem þýðir að allar hliðarnar hallast inn að miðju.“

Gróðurhúsið er glerhús úr áli sem framleitt er í Belgíu en þessi gróðurhús hafa verið seld á Íslandi í 25 …