
Ingrid Kuhlman, framkvæmdastjóri Þekkingarmiðlunar, sem er með meistaragráðu í jákvæðri sálfræði, segir að það sé eitthvað heillandi við að láta hendurnar hverfa ofan í moldina.
„Það má segja að þegar við ræktum garðinn séum við jafnframt að rækta okkur sjálf. Rannsóknir í jákvæðri sálfræði sýna að tenging við náttúruna eykur vellíðan, stuðlar að jákvæðum tilfinningum og bætir lífsgæði. Garðyrkja sameinar marga af þeim þáttum sem jákvæð sálfræði kennir okkur að efli hamingju. Hún kallar á núvitund, tengir okkur við lífið í kringum okkur og veitir okkur tilfinningu fyrir tilgangi og árangri. Náttúrulegt umhverfi er ekki aðeins fagurt – það hefur djúpstæð áhrif á bæði líkama og sál.“
Ingrid nefnir fjögur atriði sem lýsa áhrifum garðvinnu. Í fyrsta lagi hefur hún áhrif á geðheilsu og vellíðan, í öðru lagi hefur hún áhrif á líkamlega heilsu, í þriðja lagi eru það félagsleg tengsl og tilgangur og í fjórða lagi er um að ræða tengsl við sjálfbærni og náttúruna.
Áhrif á geðheilsu og vellíðan
„Rannsóknir sýna að garðvinna dregur úr streitu og kvíða. Tenging við náttúruna – hvort sem það er í gegnum útiveru, göngur eða garðvinnu – hefur róandi áhrif á taugakerfið. Þegar við snertum moldina, vinnum með plöntur og dveljum í grænu umhverfi lækkar magn kortisóls, helsta streituhormóns líkamans. Náttúran hjálpar okkur einnig að slaka á sjónrænt sem hefur áhrif á hjartslátt, öndun og líkamlegt jafnvægi.
Garðvinna stuðlar jafnframt að núvitund. Hún krefst athygli og nærveru og örvar öll skynfærin. Þegar við gróðursetjum, vökvum, hlustum á náttúruleg hljóð og snertum plöntur beinist athyglin að augnablikinu og það styrkir andlega vellíðan.“
Ingrid segir að það að sjá eitthvað vaxa og dafna – hvort sem það eru blóm, kryddjurtir eða grænmeti – veiti mikla ánægju.„Við upplifum þakklæti gagnvart náttúrunni og lífinu þegar við sjáum eigin verk blómstra.“
Líkamleg heilsa
Garðvinna felur í …