„Stóllinn er frá ömmu minni, Sigurlaugu Kristínu Jóhannsdóttur, sem ég heiti í höfuðið á.“
Hvenær fékkstu þennan stól?
„Ég fékk hann þegar verið var að fara í gegnum dánarbúið. Þar voru ýmsir fallegir munir, sumir fóru til barnabarna, og ég fékk þennan stól.“
Hvaða þýðingu hefur hann fyrir þig?
„Ég man vel eftir þessum stól hjá ömmu, og það hefur mikla þýðingu fyrir mig að hafa hann á heimilinu þar sem margt kemur til dæmis úr Ikea. Þegar ég komst að því að áklæðið væri útsaumur eftir ömmu fannst mér stóllinn enn dýrmætari. Þó að prjónaskapur sé enn iðkaður af fullum krafti sér maður sjaldan svona útsaumað áklæði lengur. Amma saumaði áklæðið þegar pabbi var lítill og hann man eftir því að hún greip í saumana á nokkurra ára tímabili. Áður hafði hún einnig saumað áklæði á píanóbekk, sem nú er hjá systur minni, og síðan saumaði hún annan stól í öðru mynstri og annarri litasamsetningu. Mynstrið er misfíngert og var talið út sem gerði verkið enn tímafrekara. Litirnir í mynstrinu eru fallegir og vínrauði liturinn í áklæðinu tónar vel við viðinn. Það sem maður getur tekið sér til fyrirmyndar er að fólkið stytti sér stundir með því að gera fallegar hannyrðir sem lifa áfram, í dag horfir fólkið á sjónvarpsþáttaraðir eða skrollar í símanum. Sjónvarpið var mikil breyting í lífi þessa fólks og pabbi sagði mér að þegar það kom til sögunnar hafi amma oft talað um það sem hálfgerðan tímaþjóf. Stóllinn minnir mig á fólkið mitt, hvað fólk var duglegt og nýtti tímann til góðra verka. Það er margt sem ég myndi tala um við ömmu í dag sem mér gafst ekki færi á sem barni. Amma dó á 11 ára afmælisdeginum mínum þannig að mér finnst ég hafa ýmsar tengingar við hana þrátt fyrir að ég hafi …