
Á dimmum tímum er mikilvægt að finna ljós í myrkrinu og hvað færir okkur meira ljós en gott partí? Það er engin tilviljun að til forna hafi hátíð ljóss og friðar verið haldin hátíðleg á vetrarsólstöðum, enda er það mikið gleðiefni þegar bjartari tímar eru fram undan. Í riti Árna Björnssonar, Merkisdagar á mannsævinni, segir að brúðkaup voru oft og tíðum haldin í þrjá daga fram á 17. öld. Þá gátu gestir skipt hundruðum hjá stórlyndum mönnum, en þetta er nokkuð magnað þegar litið er til smæðar Íslands, fjarlægða milli staða og erfiðleika til að ferðast á milli. Algengast var að brúðkaup voru haldin að hausti enda hafði sumarönnum lokið á þeim tíma og nóg var til af kjöti til að fæða allan mannskapinn og sumarskipin komu með öl og vín til landsins svo að hægt væri að væta kverkar gestanna. Einnig segir Árni að sex vottar þurfti að hafa við hjónasængina til þess að tryggja það að hjónaefnin myndu byrja eðlilegt hjúskaparfar. Ekki er víst að almenningur nútímans sé spenntur fyrir því að taka þann sið upp aftur en við blætissmánum engan hér.
18. og 19. aldirnar
Á 18. öld virðast þessar stórveislur hafa lagst af enda byrjaði öldin með trompi þegar þriðjungur landsmanna lést af völdum Stóru-bólu á fyrsta áratug aldarinnar. Svo má ekki gleyma móðuharðindunum sem riðu yfir frá 1783–1785. Segja má að þessi öld hafi aldeilis sett svip sinn á veisluhöld, en eins og við þekkjum sjálf sem höfum lifað á Íslandi á þriðja áratug 21. aldarinnar að fátt aftrar okkur betur frá því að halda stórar veislur en heimsfaraldur og náttúruhamfarir. Til að bæta gráu ofan á svart segir í Íslenzkum þjóðháttum Jónasar Jónassonar að Danakonungur Kristján fimmti hafi verið lítt gefinn fyrir drykkjusiði Íslendinga og vildi hann setja harðari siðareglur á hér á landi. …