
Brúðarvöndurinn slær gjarnan tóninn fyrir brúðkaupið. Barmblóm brúðgumans er almennt aðalblómið í brúðarvendinum. Svaramenn, brúðarmeyjar og -sveinar fá almennt líka blóm. Rrýmið þar sem brúðkaupsveislan er haldin er oft skreytt með sömu blómum eða í svipuðum stíl eða litaþema.
Sérfræðingar í blómaskreytingum segja allan gang á því eftir hverju brúðir eru að leita.
„Brúðarvendirnir eru svolítið frjálslegri og villtari heldur en þeir hafa verið en það er samt svo breytilegt; en ég myndi segja að þeir væru villtari og þéttari og það er fallegt að nota þurrkuð strá með en þá verða þeir aðeins náttúrulegri,“ segir Gunnhildur Ragúels Halldórsdóttir, blómaskreytir hjá Blómabúð Akureyrar. „Stíllinn í dag er rómantískur; stór blóm í bland við alls konar minni blóm og grænt með. Rósirnar eru alltaf vinsælastar; það breytist ekki. Margar vilja fá bóndarósir en þeirra besti tími er frá maí og fram í júlí en svo verða þær dýrari; bóndarósin er aðeins stærri en hefðbundin rós og er fallegt að blanda með minni blómum, rósum og fallegum grænum greinum. Svo er alltaf einhver sem kemur með eitthvað úr garði foreldra sinna eða ömmu og afa og vill láta fljóta með í vöndinn.“

Hún nefnir líka að oftast sé einmitt eitthvað grænt með í vendinum og þá helst eucalyptus-greinar. Þá er brúðarslör í flestum brúðarvöndum.

Hvað rósirnar varðar segir Gunnhildur að það sé helst litapallettan sem breytist ár frá ári. „Cappuccino-rósir eru búnar að vera vinsælar en þær eru brúnbleikar. Svo eru hvít blóm alltaf vinsæl. Mér finnst rauði liturinn hafa dalað svolítið í vinsældum.“

Gunnhildur segist vera vön að vefja stilka brúðarvandarins með ljósum borða og …