Þegar kaupa á grill er gott að skoða úrvalið vel og velja vandað grill. Úlfar Finnbjörnsson matreiðslumeistari segir að margir kaupi allt of stór grill. „Auðvitað er voða gaman að eiga stóran bíl og stórt grill en maður þarf ekkert alltaf að nota þetta. Það þarf ekki þessi stóru grill ef það eru tveir til fjórir í fjölskyldu. Þá ætti frekar að kaupa minna grill og kaupa alvöru grill.“
Hreinlæti skiptir miklu máli og þarf alltaf að þrífa grillið vel áður en grillað er. Úlfar bendir á að þegar búið er að grilla ætti ekki að slökkva strax á gasgrilli og að betra sé að þrífa gasgrill á meðan það er heitt. Reglulega ætti svo að fjarlægja fitu sem lekur niður af matnum. „Ef fitan situr undir teinunum getur einn daginn kviknað í grillinu og það stæði í ljósum logum. Og það væri ekki gott.“
Ekki snúa of snemma
Það þarf að gæta þess að hita grillið vel þegar á að grilla. Úlfar segir að oft sé gott að vera með olíusprey eða smjörsprey og spreyja á teinana og grindina áður en settur er á þá fiskur eða kjöt en þó sérstaklega fiskur. Hann tekur fram að gott sé að láta fisk og kjöt ná stofuhita þannig að ekki sé verið að grilla ískaldan fisk eða kjöt.
„Ef maður er að grilla fisk, og í raun kjöt líka, þá verður maður að passa að snúa fiskinum, eða kjötinu, ekki of snemma vegna þess að ef grillið er ekki nógu heitt og snúið er of snemma þá er eins og fiskurinn, eða kjötið, sé límdur á grillteinana. Þetta þarf eiginlega að brenna frá þannig að þegar komnar eru fallegar rendur þá er auðveldara að snúa fiskinum eða kjötinu. Það ætti helst að snúa fiski bara einu sinni; grilla öðrum megin …