Það er að ýmsu að huga þegar kemur að brúðarvendinum. Ákveða þarf lögun hans, samsetningu blóma og finna rétta stærð. Elva Sóley hefur unnið hjá Dögg blómabúð síðustu ár og hvetur fólk til að panta vendina tímanlega, sér í lagi á sumrin.
Elva Sóley Schulin hefur unnið í blómabúðinni Dögg í fjögur ár. Þar er meðal annars boðið upp á brúðarvendi, brúðarmeyjuvendi, barmblóm, höfuðkransa og borðskreytingar.

Hvítt og tröllatré
Fyrsta skrefið þegar ákveða á brúðarvönd er að hafa samband við blómabúð og greina frá óskum sínum. „Svo förum við í gegnum hvaða litasamsetningu þau [tilvonandi brúðhjón] eru að pæla í og hvort að þau séu með einhver sérstök blóm í huga,“ segir Elva Sóley. „Við biðjum fólk reglulega að senda okkur hugmyndir á Pinterest þannig að við sjáum hvaða væb er í gangi. Við vinnum svo út frá því.“

Spurð hvaða brúðarvöndur hún haldi að verði vinsæll í sumar svarar Elva Sóley: „Ég held að það verði rosalega mikið af hvítu og tröllatré (e. eucalyptus).“ Skandinavíski stíllinn er ráðandi um þessar mundir en „inn á milli gerum við extra litríka vendi, bleika, appelsínugula og gula. Það er mjög gaman.“
Lögun brúðarvandanna getur líka verið ólík. Síðustu misseri hafa svokallaðir dropavendir notið vinsælda en þeir hanga úr höndum brúðarinnar. „Það er svolítið á milli dropavandanna sem lafa, en kúluvendir eru yfirleitt algengastir.“
Vera tímanlega
Það er mest eftirspurn eftir brúðarvöndum og blómaskreytingum í brúðkaup á sumrin. Elva Sóley hvetur fólk til að hafa samband við blómabúðir tímanlega, í minnsta lagi mánuði fyrr.

Það er líka mikilvægt að hafa árstíð brúðkaupsins í huga. „Blóm eru tímabundin,“ útskýrir Elva Sóley. „Þú getur ekki fengið öll blómin hvenær sem er á árinu.“ Eins minnir Elva Sóley á að sjaldgæfari blóm kosti meira. „En við getum yfirleitt fundið eitthvað annað í staðinn sem er rosa svipað.“
Samkvæmt blómasalanum er gott að blómin séu sótt í blómabúðina sama dag og brúðkaupið fer fram. „Við getum haft þau í kæli og það fer best um þau hjá okkur.“
Elva Sóley hefur gaman af því að setja saman brúðarvendi. Verkið …