
Jóhanna Þórhallsdóttir er síkvik og lærði ekki fyrir löngu þá list að kveða rímur og nú fer hún víða með eiginmanni sínum, Óttari Guðmundssyni, geðlækni og rithöfundi, til að kynna bók hans um Sigurð Breiðfjörð sem kom út fyrir jól, og kveður þá rímur. Jóhanna hefur alltaf verið mjög skapandi, sem kemur meðal annars fram í matargerðarlistinni. Hún er orðlagður listakokkur og mikill matgæðingur en hún gefur hér upp nokkrar uppskriftir sem hafa fylgt henni í gegnum árin og eru undir áhrifum af þeim stöðum sem hún hefur átt heima eða dvalið á.
Jóhanna er mikil stemningskona og hefur gaman af að bjóða í mat og gjarnan með litlum fyrirvara. Fjölskylda Jóhönnu og Óttars er stór, telur um 30 manns samanlagt og oft býður hún krökkunum í mat, eins og hún segir. Það eru ákveðnir réttir sem henni finnst gaman að elda þegar hún fær gesti, réttir sem eru einfaldir, þar sem allt hráefni er sett í eitt fat og svo eru þeir líka bragðgóðir og hollir eins og hún segir sjálf. Jóhanna segist nota uppskriftir sem grunn og aðlaga þær svo að sínum smekk, „maður er ekkert að láta einhvern kokk úti í löndum stjórna sér,“ segir hún sposk.
Mataráhuginn í genunum
Jóhanna fékk í arf að vera góður kokkur og börnin hennar tvö, Hildigunnur og Guðmundur, eru það líka. „Mamma var góður kokkur og hafði gaman af að elda og ég ólst upp við góðan mat. Við vorum með fisk þrisvar til fjórum sinnum í viku og hún gerði t.a.m. mjög góða lúðusúpu sem ég bað hana stundum um að hafa á afmælinu mínu. Lúðusúpan er ein af góðu matarminningum mínum frá æskuheimilinu. Svo var smurt ofan í okkur fyrir skólann og alltaf matur og við borðuðum margvíslega grauta í eftirrétti. Bæði börnin mín eru góðir kokkar og …